Tilraunaverkefni
Fangelsismálastofnun hefur hafið tilraunaverkefni í samstarfi við ABC barnahjálp. Verkefnið felst í því að fangar í Hegningarhúsinu og í Fangelsinu Akureyri pakka inn jólakortum sem seld verða um allt land fyrir þessi jól. Ágóðinn rennur til munaðarlausra barna í Úganda, Indlandi, Pakistan og á Filippseyjum.
Fangelsismálastofnun hefur áhuga á að skoða fleiri samstarfsverkefni með frjálsum félagasamtökum og einnig gætu fyrirtæki komið inn sem þátttakendur í slíku samstarfi. Markmiðið yrði tvíþætt: Annars vegar að efla starfsemi í fangelsum landsins sem lið í endurhæfingu fanga og hins vegar að vinna að mannúðarmálum með því að veita stuðning og hjálp til nauðstaddra.
Starfið hjá ABC barnahjálp gengur út á það að veita munaðarlausum, fátækum og umkomulausum börnum heimili auk fæðis og klæðis. Þar að auki veitir ABC varanlega hjálp í formi skólagöngu og læknishjálpar.
Finna má allar upplýsingar um ABC barnahjálp á heimasíðu þeirra www.abc.is
Í mörgum fangelsum erlendis starfa fangar fyrir sjálfboðaliðasamtök sem vinna að mannúðarmálum. Sem dæmi má nefna að í Bretlandi eru starfandi frjáls félagasamtök sem kölluð eru: ,,The Inside Out Trust” sem njóta styrkja frá ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum. Verkefni samtaka þessara er að halda utan um störf í fangelsum sem eingöngu eru unnin fyrir sjálfboðaliðsamtök og er markmiðið tvíþætt:
1) Að störfin hjálpi föngum til að byggja upp sjálfstraust og sjálfsvirðingu sem er mikilvæg og nýtist þeim þegar þeir losna úr fangelsi. Þá er starfinu ætlað að auka áhuga þeirra á því að mennta sig. Enn fremur að læra að taka tillit til annarra og lifa í sátt við sig og umhverfi sitt.
2) Að styðja börn og fullorðna sem búa við fátækt eða annars konar neyð í stríðshrjáðum löndum eða annars staðar.
Finna má nánari upplýsingar um samtökin á heimasíðu þeirra http://www.inside-out.org.uk/
Fangelsismálastofnun hefur áhuga á að skoða slíka möguleika til að efla starfsemina í fangelsum landsins sem lið í endurhæfingu fanga. Á sama tíma væri unnið að mannúðarmálum með því að veita stuðning og hjálp til nauðstaddra.
Þeir sem áhuga hafa á að koma á slíku tilraunaverkefni í samstarfi við Fangelsismálastofnun er bent á að hafa samband við Margréti Sæmundsdóttur í síma 520-5000 eða í netfangi: margret@tmd.is.