Fréttir

Ný reglugerð um fullnustu refsinga tók gildi 9. nóvember 2005

12.11.2005

Hinn 9. nóvember 2005 tók gildi ný reglugerð um fullnustu refsinga nr. 961/2005. Reglugerðin er með þeim fyrstu sem birtist í rafrænni útgáfu Stjórnartíðinda en hinn 8. nóvember sl. opnaði Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, nýjan vef Stjórnartíðinda og þar með hófst hin rafræna útgáfa. Réttaráhrif laga og stjórnvaldaerinda miðast nú við birtingu á vefnum www.stjornartidindi.is og er gildistaka daginn eftir birtingu.

Í ávarpi dóms- og kirkjumálaráðherra Björns Bjarnasonar við athöfnina í Þjóðmenningarhúsinu, sem birt er á vefsíðu ráðuneytisins, kom fram að fyrir rúmu 131 ári, eða í ágúst 1874, hafi fyrsta auglýsingin í B-deild Stjórnartíðinda birst og hafi hún haft að geyma reglur fyrir fanga í Hegningarhúsinu í Reykjavík og að hin nýja reglugerð um fullnustu refsinga væri með því fyrsta, sem ráðuneytið myndi birta í hinni rafrænu útgáfu Stjórnartíðinda. Viðfangsefni stjórnsýslunnar væru því hin sömu þrátt fyrir að tíminn liði og tæknin breyttist.



Senda grein