Frumvarp til fjárlaga
Hinn 26. maí sl., tilkynnti dómsmálaráðherra formlega að ráðuneytið hafi gert tillögu Fangelsismálastofnunar um uppbyggingu fangelsa ríkisins að sinni. Jafnframt að fjárveitingavaldið hafi samþykkt að hefja nú þegar framkvæmdir við uppbyggingu fangelsanna á Kvíabryggju og á Akureyri. Í kjölfarið var Stefán P. Eggertsson verkfræðingur ráðinn á vegum dómsmálaráðuneytisins sem verkefnisstjóri á meðan á þessu stæði. Hann hefur unnið að forathugun á málaflokknum í heild og að frumáætlun fyrir einstök fangelsi í samræmi við verklagsreglur sem fjármálaráðuneytið hefur sett um opinberar framkvæmdir.
Staða þessara mála í dag er þannig:
1. Unnið er að því að ljúka frumáætlun fyrir framkvæmdir á Kvíabryggju svo að unnt verði að hefja þær í mars 2006 og ljúka á árinu. Eftir þær breytingar verða 22 fangapláss á staðnum í stað 14 auk þess sem aðstaða þar batnar verulega.
2. Lokið er gerð frumáætlunar varðandi breytingu og stækkun Fangelsins Akureyri og hefur grenndarkynning farið fram. Nú er unnið að teikningum. Samkvæmt áætlun eiga verklegar framkvæmdir að hefjast í febrúar/mars á næsta ári og taka um eitt ár. Eftir breytingarnar verða fangapláss 10 í stað 8.
3. Samkvæmt upplýsingum dómsmálaráðuneytisins standa vonir til þess að fjárveitingar til þessara verkefna verði settar inn í meðförum Alþingis.
4. Ákvörðun hefur verið tekin um uppbyggingu Fangelsisins Litla-Hrauns og um byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði á grundvelli skýrslna Fangelsismálastofnunar. Tímasetningar þessara framkvæmda verða fastsettar í tengslum við gerð fjárlaga.
Sjá nánar skýrslu Fangelsismálastofnunar um uppbyggingu fangelsa ríkisins á síðu stofnunarinnar.