Afplánun á meðferðarstofnunum Barnaverndarstofu
Skv. 44. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 skulu fangar sem eru undir 18 ára aldri afplána á heimili á vegum barnaverndaryfirvalda, nema fyrir liggi mat sérfræðinga um að það sé honum fyrir bestu með vísan til sérstakra aðstæðna er lúta að honum sjálfum og í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Um slíka vistun gilda ákvæði laga þessara ef við á.
Á árinu 1998 gerðu Fangelsismálastofnun og Barnaverndarstofa með sér samkomulag um vistun fanga yngri en 18 ára sem endurnýjað var á árinu 1999. Í samkomulaginu var gert ráð fyrir því að þegar dómur barst til fullnustu þar sem yngri dómþoli en 18 ára var dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi skyldi Barnaverndarstofu þegar tilkynnt um það og hún skyldi kanna hvort hún telji mögulegt að dómþoli afplánaði refsingu sína á meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu. Í samkomulaginu var gert ráð fyrir því að ungmenni sem úrskurðuð voru í gæsluvarðhald skyldi sæta sömu málsmeðferð og slík vistun væri framkvæmd í samráði við rannsóknaraðila máls.
Eins og að framan greinir er nú kveðið á um það í 44. gr. fullnustulaganna að fangar sem eru undir 18 ára aldri skuli vistaðir á heimili á vegum barnaverndaryfirvalda nema sérstakar ástæður séu til að vista þá í fangelsi.