Afplánun í fangelsi
Í 21. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016. segir m.a. að Fangelsismálastofnun ákveði í hvaða fangelsi afplánun fari fram og að við þá ákvörðun skuli tekið tillit til aldurs, kynferðis, brotaferils fangans og þyngdar refsingar auk þeirra sjónarmiða sem gilda um vistun í hverju fangelsi fyrir sig.
Þá getur Fangelsismálastofnun látið færa fanga milli fangelsa eða frá stofnun til fangelsis og skal við slíkan flutning, eftir því sem aðstæður leyfa, hafa hliðsjón af búsetu fanga og fjölskyldu hans.
Fanga skal tilkynnt fyrirfram um slíkan flutning með minnst sólarhrings fyrirvara og gerð grein fyrir ástæðum flutnings nema hann teljist nauðsynlegur af öryggisástæðum, vegna heilbrigðis fanga, til að fyrirbyggja ofbeldi hafi fangi gerst sekur um gróft agabrot eða fyrir liggi rökstuddur grunur um að fangi hafi fíkniefni eða ólögmæt lyf undir höndum.
Fanga er heimilt að láta aðstandendur sína og lögmann vita af flutningi milli fangelsa. Forstöðumaður fangelsis getur í öryggisskyni eða vegna sérstakra aðstæðna tekið ákvörðun um að flytja fanga á milli deilda og klefa. Ekki er skylt að gefa fanga kost á að tjá sig áður en slík ákvörðun er tekin en gæta skal hagsmuna fangans í því sambandi.
Fangar sem eru undir 18 ára aldri skulu vistaðir á vegum barnaverndaryfirvalda.
Skv. 44. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 skulu fangar sem eru undir 18 ára aldri afplána á heimili á vegum barnaverndaryfirvalda, nema fyrir liggi mat sérfræðinga um að það sé honum fyrir bestu með vísan til sérstakra aðstæðna er lúta að honum sjálfum og í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Um slíka vistun gilda ákvæði laga þessara ef við á.
Helstu sjónarmið sem ráða vistun afplánunarfanga í fangelsi
Fimm fangelsi eru í landinu, Hegningarhúsið, Fangelsið Litla-Hrauni, Fangelsið Akureyri, Fangelsið Kvíabryggja og Fangelsið Sogni. Fangelsin eru mjög ólík bæði hvað stærð og aðbúnað varðar (sjá nánari umfjöllun um fangelsin og starfsemi þeirra undir: Fangelsi ríkisins. Hér á eftir verður í stuttu máli gerð grein fyrir lögum og sjónarmiðum sem ráða því hvar fangar eru vistaðir.
Eins og áður segir er flestum dómþolum gert að mæta til afplánunar í Hegningarhúsið að Skólavörðustíg 9. Meirihlutinn er þar einungis í skamman tíma og eru flestir fluttir til vistunar í önnur fangelsi. Þeir sem afplána skemmri refsingar eru þó oft allan tímann í Hegningarhúsinu. Þá kemur fyrir að dómþolar sem þurfa meðferð lækna á höfuðborgarsvæðinu séu vistaðir um lengri tíma á staðnum og einnig geta persónulegar aðstæður manna svo og óskir þeirra orðið til þess að afplánun í Hegningarhúsinu getur orðið margir mánuðir.
Í Fangelsinu Litla-Hrauni eru 87 pláss. Stærð þess fangelsis ræður því sjálfkrafa að flestir fangar vistast þar, auk þess sem það er best útbúið hvað varðar aðstöðu og öryggismál. Dómþolar með lengri refsingar og þeir sem ítrekað hafa afplánað refsingu eru yfirleitt vistaðir á Litla-Hrauni. Vegna góðrar námsaðstöðu á staðnum er nokkuð um það að dómþolar með lægri refsingar og lítinn sakarferil sækist eftir því að verða vistaðir þar og er reynt að verða við óskum þeirra. Flestir gæsluvarðhaldsfangar eru vistaðir á Litla-Hrauni bæði þeir sem eru í einangrun og í svokallaðri lausagæslu. Þeir síðarnefndu eru vistaðir með afpánunarföngum og stunda vinnu eða nám til jafns við þá. Af þessu má sjá að samsetning fangahópsins á Litla-Hrauni er mjög fjölbreytileg en föngum er raðað niður á 7 afplánunardeildir. Ekki er samgangur á milli deilda nema í sambandi við nám, vinnu og útivist. Við val á deildir er m.a. tekið tillit til hegðunar, vímuefnaneyslu, aldurs, tengsla fanga og áforma þeirra á afplánunartímanum.
Í Fangelsinu Akureyri eru 10 pláss og hafa þar einkum verið vistaðir fangar með skemmri dóma. Þó hafa á seinni árum einnig verið vistaðir þar dómþolar í nokkra mánuði, einkum ef þeir hafa sjálfir óskað eftir því og/eða þeir eru búsettir norðanlands. Frá lokun Fangelsisins Kópavogsbraut 17 hafa kvenfangar verið vistaðir þar.
Í Fangelsinu Kvíabryggju eru 23 pláss og má segja að fangelsið sé opið að því leyti til að hvorki eru þar rimlar fyrir gluggum né heldur er svæðið sérstaklega afgirt. Einkum eru þar vistaðir menn sem hafa lítinn sakarferil og þeir sem ætla má að sé treystandi til að afplána við slíkar aðstæður. Það skilyrði er einnig sett að fangar sem vistast á Kvíabryggju séu vel vinnufærir og duglegir til verka. Algengast er að vistunartími fanga á Kvíbryggju sé frá nokkrum mánuðum og allt að tveimur árum. Undantekningar verða þó alltaf einhverjar, t.d. ungur aldur og persónulegar aðstæður.
Í Fangelsinu Sogni er 21 pláss og þar eru vistaðir fangar sem hafa staðið sig vel í afplánun og er treystandi til að vistast í opnu fangelsi. Föngum er ætlað að stunda vinnu eða nám og við komu í fangelsið er hverjum og einum gert að skrifa undir samkomulag um vistunina. Fangar sjá sjálfir um eldamennsku, þrif, þvotta og annað er viðkemur almennu húshaldi og er markmiðið m.a. að þjálfa þá í lífsleikni. Þannig er lagður grunnur að því að undirbúa fanga til að koma út í samfélagið að nýju.
Oft geta komið upp vandamál þegar föngum er raðað í fangelsi eða á einstakar deildir innan þess. Þannig er t.d. óheppilegt eða óæskilegt að vista saman menn sem staðið hafa saman í afbrotum. Þá kemur fyrir að menn telji sig eiga harma að hefna hver gegn öðrum. Enn fremur þarf oft að taka tillit til persónulegra tengsla eða fjölskyldutengsla þegar afplánunarstaður er ákveðinn. Almennt séð er rétt að taka fram í þessu sambandi að fjöldi klefa/herbergja í hverju fangelsi ræður ávallt nokkru um vistun.
Heilbrigðisþjónusta fanga
Samkvæmt 29. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 skulu fangar njóta sambærilegrar heilbrigðisþjónustu og almennt gildir, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu. Að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun sér það ráðuneyti sem fer með heilbrigðismála um og ber ábyrgð á heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsum.