Reynslulausn

Reynslulausn

Fangar sem afplána óskilorðsbundna fangelsisrefsingu geta sótt um reynslulausn, annaðhvort eftir helming refsitímans eða 2/3 hluta hans.

Um reynslulausn er fjallað í 80. - 82. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016.

Í 1. mgr. 80. gr. laganna segir að þegar fangi hafi afplánað 2/3 hluta refsitímans geti Fangelsismálastofnun ákveðið að fanginn skuli látinn laus til reynslu.

Í 2. mgr. segir að heimilt sé að veita þeim fanga sem ekki afplánar refsingu fyrir alvarlegt eða að öðru leyti gróft afbrot eða tilraun til slíks brots, svo sem manndráp, ofbeldis- eða kynferðisbrot, frelsissviptingarbrot, meiri háttar fikniefnabrot, brennu eða önnur almannahættubrot og rán, lausn til reynslu þegar helmingur refsitímans er liðinn.

Í 3. mgr. segir sé að veita fanga lausn til reynslu þegar helmingur refsitímans er liðinn, þrátt fyrir að hann afpláni refsingu fyrir alvarlegt eða að öðru leyti gróft afbrot, ef mjög sérstakar persónulegar ástæður mæla með því og framkoma og hegðun fanga í refsivistinn hafi verið með ágætum. Sama gildi liggur fyrir ákvörðun Útlendingastofnuanr um að fanga verði vísað úr landi að afplánun lokinni. Hafi fangi afplánað tvívegis eða oftar afplánað fangelsisrefsingu verður houm ekki veitt reynslulausn þegar liðinn er helmingur nema sérstakar ástæður mæli með.

Í 4. mgr. segir að heimilt sé að veita fanga lausn til reynslu þegar einn þriðji hluti refsitímans er liðinn, enda hafi fangi verið 21 árs eða yngri þegar hann framdi afbrot það sem hann situr í fangelsi fyrir, hegðun hans og framkoma verið með ágætum og hann þegið viðeigandi meðferð í afplánun og tekist á við vímuefnavanda sinn, hafi hann verið til staðar.

Í 5. mgr. segir að fanga, sem á mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum þar sem hann er grunaður um refsiverðan verknað, verði að jafnaði ekki veitt reynslulausn, enda sé málið rekið með eðlilegum hætti og dráttur á því ekki af völdum fangans.

Í 6. mgr. segir að fanga, sem telst vera síbrotamaður eða sem ítrekað hefur verið veitt lausn til reynslu og rofið skilyrði hennar, skuli ekki veitt reynslulausn á ný nema sérstakar ástæður mæli með. Sama gildir þegar reynslulausn telst óráðleg vegna haga fangans eða með tilliti til almannahagsmuna, svo sem þegar hann hefur sýnt af sér mjög ámælisverða hegðun í afplánun eða er talinn hættulegur öðrum samkvæmt mati fagaðila. Nú er fanga synjað um reynslulausn samkvæmt þessari málsgrein og skal þá kynna honum hvaða skilyrði hann þurfi að uppfylla svo að unnt sé að endurskoða ákvörðunina.

Í 7. mgr. segir að það sé skilyrði reynslulausnar að fangi lýsi því yfir að hann vilji hlíta þeim skilyrðum sem sett eru fyrir reynslulausn. Þegar fangi fær lausn til reynslu skal afhenda honum skírteini er greini skilyrði fyrir reynslulausn og hverju skilorðsrof varði.

Í 8. mgr. segir að þegar hluti fangelsisrefsingar sé óskilorðsbundinn en hluti skilorðsbundinn verði reynslulausn ekki veitt. Sama gildir þegar fangi afplánar vararefsingu fésektar.

Í 9. mgr. segir að hafi dómþoli ekki hafið afplánun sé heimilt að veita honum reynslulausn af refsingunni ef hann hefur áður afplánað að minnsta kosti jafnlanga refsingu og refsingin er einvörðungu vegna afbrota sem framin eru fyrir þá afplánun og hann hefur ekki verið dæmdur til fangelsisrefsingar fyrir afbrot framin eftir að þeirri afplánun lauk. Sama gildir ef dómþoli hefur þegar hafið afplánun.

Ef umsókn um reynslulausn er synjað getur umsækjandi kært þá niðurstöðu til Innanríkisráðuneytisins.

Þegar fangar fá reynslulausn er þeim afhent skírteini þar sem fram koma skilyrði fyrir reynslulausninni og hverju skilorðsrof varði.

Í 81. gr. er fjallað um skilyrði reynslulausnar:

Reynslulausnir eru ávallt bundnar þeim skilyrðum að aðili gerist ekki sekur um refsiverðan verknað á reynslutímanum.

Auk þess má ákveða að reynslulausn verði, allan eða nánar tiltekinn hluta reynslutímans, bundin eftirfarandi skilyrðum:

  1. Að aðili sé háður umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar eða annars aðila sem hún ákveður.
  2. Að aðili neyti hvorki áfengis né ávana- og fíkniefna.
  3. Að aðili hlíti fyrirmælum umsjónaraðila um dvalarstað, menntun, vinnu, umgengni við aðra menn og iðkun tómstundastarfa.
  4. Að aðili sæti sérstakri meðferð innan eða utan stofnunar. Vistun á stofnun getur þó ekki staðið lengur en til loka refsitíma.
  5. Að aðili hafi á sér búnað svo að Fangelsismálastofnun eða annar aðili sem hún velur geti fylgst með ferðum hans í samræmi við þau fyrirmæli sem Fangelsismálastofnun hefur sett honum.

Fangelsismálastofnun tekur ákvarðanir skv. 1. og 2. mgr. og getur vegna breyttra ástæðna fellt skilyrði niður að nokkru leyti eða öllu.

Nú sætir aðili skilyrði skv. 2. tölul. 2. mgr. og er þá heimilt að krefjast þess að hann undirgangist rannsókn á öndunarsýni eða blóð- og þvagrannsókn. Synji aðili slíkri rannsókn gildir það sem rof á skilyrðum.

Í 82. gr. er fjallað um skilyrði reynslulausnar:

Fremji maður nýtt brot eftir að hann hlýtur reynslulausn á óafplánuðum eftirstöðvum og rannsókn hefst hjá lögreglu gegn honum sem sakborningi fyrir lok reynslutímans ákveður dómstóll sem fjallar um málið refsingu í einu lagi fyrir hið nýja brot og með hliðsjón af hinum óafplánuðu eftirstöðvum.

Að kröfu ákæranda getur þó dómstóll úrskurðað að maður, sem hlotið hefur reynslulausn, skuli afplána eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutíma rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið nýtt brot sem varðað getur sex ára fangelsi eða að brotið varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Heimilt er að kæra úrskurð dómara til Hæstaréttar Kæra frestar ekki framkvæmd úrskurðar. Dómari skal víkja sæti eftir útgáfu ákæru ef hann hefur áður úrskurðað mann, sem ákærður er í málinu, skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar.

Rjúfi maður skilorð að öðru leyti getur Fangelsismálastofnun ákveðið hvort breytt skuli skilyrðum og reynslu- og/eða tilsjónartími lengdur allt að lögmæltu hámarki hans eða að hann taki út refsingu sem eftir stendur.


Tölulegar upplýsingar:  Sjá töflu 10 undir ársskýrslur.


 

 

Senda grein