Fangelsisrefsing óskilorðsbundin
Boðun til afplánunar
Þegar Fangelsismálastofnun hefur tekið við refsidómum til fullnustu er viðeigandi dómþola tilkynnt hvenær honum beri að mæta til afplánunar. Venju samkvæmt er það í beinu framhaldi af því að dómur berst stofnuninni.
Þeir dómþolar sem hafa hlotið lengri en 12 mánaða fangelsisrefsingu eru boðaðir til afplánunar a.m.k. fjórum vikum eftir dagsetningu boðunarbréfs en þeir sem hljóta 12 mánaða fangelsisrefsingu eða minna eru boðaðir til afplánunar a.m.k. fimm vikum eftir dagsetningu boðunarbréfs þar sem þeir eiga rétt á að sækja um að afplána refsingu sína með samfélagsþjónustu. Með þeim bréfum fylgja með upplýsingar um samfélagsþjónustu ásamt umsóknareyðublaði.
Flestir sem boðaðir eru til afplánunar mæta í Hegningarhúsið að Skólavörðustíg 9, Reykjavík en þeim sem búa á Norðurlandi er oft heimilað að mæta beint í Fangelsið Akureyri sem staðsett er í Lögreglustöðinni við Þórunnarstræti. Fljótlega eftir komu í fangelsi fer fram læknisskoðun og tekin er persónuskýrsla af fanganum.
Ef dómþoli er í gæsluvarðhaldi skal hann hefja afplánun refsingarinnar nema rannsóknarhagsmunir bjóði annað. Heimilt er að láta dómþola hefja afplánun án boðunar eða áður en afplánun á að hefjast skv. boðun ef hann er grunaður um að hafa framið refsiverðan verknað á ný, hætta er talin á að hann reyni að koma sér undan refsingu eða almennahagsmunir mæla með því.
Frestur til að hefja afplánun
Í 1. mgr. 16. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 segir að heimilt sé að veita stuttan frest ef sérstakar ástæður mæla með í allt að 3 mánuði frá þeim tíma er dómþoli átti upphaflega að hefja afplánun. Við mat á því hvort fresta skuli afplánun skal tekið mið af alvarleika afbrots, sakarferli, persónulegum högum hans, hversu langt sé um liðið frá því að afbrot var framið og öðru sem máli skipti. Þá er tekið fram að ekki skuli veita frest á afplánun hafi beiðnin fyrst verið borin fram eftir að afplánun á að vera hafin samkvæmt boðun. Í 4. mgr. 16. gr. segir að frestur sé bundinn því skilyrði að ekki leiki grunur á að dómþoli hafi framið refsiverðan verknað á ný og heimilt er að setja frekari skilyrði svo sem að dómþoli sé reglusamur og hafi samband við Fangelsismálstofnun eins og fyrir hann er lagt. Þá er einnig heimilt að binda frestun skilyrðum sem getið er í 57. gr. almennra hegningarlaga.
Upphaf afplánunar
Samkvæmt 23. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 skal læknir skoða fanga við upphaf afplánunar og ef þörf krefur meðan á afplánun stendur.
Samkvæmt 23. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 skal við upphaf afplánunar afhenda fanga og kynna samantekt um þær reglur sem um afplánun gilda, um réttindi og skyldur fanga, vinnu og nám sem föngum stendur til boða, reglur viðkomandi fangelsis, hvaða háttsemi varðar agaviðurlögum, um meðferð slíkra mála, kæruheimildir, upplýsingar um heimild til að beina kvörtun til umboðsmanns Alþingis og rétt fanga til að hafa samband við lögmann.
Þá skal Fangelsismálastofnun, í samvinnu við fanga, gera meðferðar- og vistunaráætlun sem skal endurskoða eftir atvikum meðan á afplánun stendur.
Við upphaf afplánunar skal fanga heimilað að tilkynna að aðstandendum sínum og lögmanni um afplánunina eins fljótt og auðið er. Fanga skal gerð grein fyrir lokum afplánunar og reglum um reynslulausn.
Fjöldi dómþola í boðun í lok hvers árs: Sjá áhugaverðar tölur.