Fangelsið Sogni, 801Selfossi

Fangelsið Sogni, 816 Ölfusi

Sími varðstofu: 480-9030 / Fax: 480-9031

Sími varðstjóra: 480-9032

Netfang: VardstjoriSo@fangelsi.is

 

 

Hinn 1. júní 2012 var Fangelsið Sogni formlega tekið í notkun. Fangelsið leysir af hólmi Fangelsið Bitru sem tekið var í notkun í maí 2010. Fangelsið er skilgreint sem opið fangelsi en það felur í sér að engar girðingar eða múrar afmarka fangelsið og því þurfa fangar sem vistast þar að hegða sér á ábyrgan hátt og bera virðingu fyrir þeim reglum sem þar gilda. Aðbúnaður í fangelsinu er góður. Á Sogni er unnið eftir sérstaki umhverfisstefnu sem fangar taka virkan þátt í. Gert er ráð fyrir að vista allt að 20 fanga á Sogni. Auk herbergja fanga eru þar viðtalsherbergi, setustofa, eldhús og borðstofa og aðstaða til líkamsræktar

Föngum er ætlað að stunda vinnu eða nám og við komu í fangelsið er hverjum og einum gert að skrifa undir samkomulag um vistunina. Fangar sjá sjálfir um eldamennsku, þrif, þvotta og annað er viðkemur almennu húshaldi og er markmiðið m.a. að þjálfa þá í lífsleikni. Þannig er lagður grunnur að því að undirbúa fanga til að koma út í samfélagið að nýju. Sjá nánar bækling um Fangelsið Bitru.

Starfsmenn: Við Fangelsið Sogni starfa samtals 8 fangaverðir undir stjórn Einars Vals Oddssonar, varðstjóra. Forstöðumaður er Halldór Valur Pálsson.

Vinna fanga: Fangar vinna við eldamennsku, þrif, þvotta og annað sem viðkemur almennu húshaldi. Þar að auki störf er tengjast viðhaldsverkefnum innandyra og snyrtingu útivistarsvæðis, s.s. málningarvinnu á klefum, garðrækt, garðslátt ofl. Unnið er eftir sérstakri umhverfisstefnu sem fangar taka virkan þátt í. Þá er stefnt að því að fangar fari í sérstök verkefni undir eftirliti fangavarðar.

Samkvæmt reglugerð um fullnustu refsinga nr. 961/2005 skal Fangelsismálastofnun setja gjaldskrá um þóknun fyrir vinnu og nám, upphæð dagpeninga fanga og greiðslufyrirkomulag. Þóknun fyrir hverja klukkustund fer eftir eðli starfs. Fangi í námi skal fá þóknun fyrir hverja kennslustund, en þó ekki fyrir fleiri kennslustundir en fimm á dag. Þóknun og dagpeningar skulu greiddir eftir á og að lágmarki á tveggja vikna fresti. Gjaldskráin skal endurskoðuð árlega.

Símanotkun: Fangar hafa nokkuð frjálsan aðgang að síma. Þá getur fangi notað síma til að ná í opinbera aðila í samræmi við 49. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016.

Heimsóknir: Samkvæmt 45. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 getur fangi fengið heimsóknir frá fjölskyldu og vinum eigi sjaldnar en vikulega ef aðstæður í fangelsi leyfa og slíkt telst gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu hans.

Heimsóknir nánustu vandamanna eru leyfðar um helgar. Fangi getur sótt um heimsóknarleyfi fyrir aðra aðila en nánustu vandamenn á þar til gerðu eyðublaði í fangelsinu. Eru leyfin háð samþykki yfirmanna fangelsisins.

Útivera og tómstundir: Samkvæmt 52. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 á fangi rétt á útiveru og að iðka tómstundastörf, líkamsrækt og íþróttir í frítíma eftir því sem aðstæður í fangelsi leyfa í að minnsta kosti eina og hálfa klukkustund á dag nema það sé ósamrýmanlegt góðri reglu og öryggi í fangelsi. Föngum er leyfilegt að nýta frítíma sinn til útivistar meðan bjart er sumar sem vetur og fara um takmarkað svæði í næsta nágrenni við húsið.


Senda grein