Meðferðarstarf

Meðferð í fangelsum er aðallega í höndum tveggja sálfræðinga sem starfa hjá Fangelsismálastofnun. Föngum er veitt alhliða sálfræðiþjónusta í formi ráðgjafar og samtalsmeðferðar. Samtalsmeðferðin byggir á viðtalstækni sem felst í því að styðja einstaklinginn til að taka ákvörðun og skuldbinda sig til að breyta hegðun sinni. Einnig er hugræn atferlismeðferð notuð en hún felst í því að skjólstæðingi er hjálpað við að skoða á kerfisbundinn hátt hvernig hugsanir hans, hegðun og líðan tengjast. Skjólstæðingi er bent á leiðir til að breyta hugsunum og/eða hegðun til að hafa áhrif á líðan sína. Ýmist er um regluleg viðtöl að ræða eða óregluleg stuðningsviðtöl eftir samkomulagi.

Sumir leita eftir þessari þjónustu til að fá ýmis konar ráðgjöf en aðrir til að fá meðferð við vandamálum sínum, sem oft tengjast afbrotahegðun þeirra eða frelsisskerðingu. Í einstökum tilfellum gefst skjólstæðingum síðan kostur á áframhaldandi meðferð eftir að afplánun lýkur.

Sálfræðiviðtöl við fanga hafa ætíð verið stærsti hluti starfs sálfræðinga og er eftirspurn eftir þjónustunni mikil. Að jafnaði veita sálfræðingarnir 25-30 viðtöl á viku og í flestum tilvikum óska fangarnir sjálfir eftir aðstoð þeirra. Einnig koma ábendingar frá ættingjum, fangavörðum, læknum og hjúkrunarfræðingum fangelsanna sem og öðrum starfsmönnum. Þá er aðstandendum veitt ráðgjöf í einstökum tilvikum.

Senda grein