Heimsóknir í fangelsi

Um heimsóknir í fangelsi fer skv. lögum um fullnustu refsinga nr. 15/2016, reglugerðum settum samkvæmt þeim og reglum sem fangelsin setja.

Í 45. grein laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 segir að fangi sem afplánar í lokuðu fangelsi geti fengið heimsóknir frá fjölskyldu og vinum ef aðstæður í fangelsi leyfa og slíkt telst gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu hans. Fangi getur fengið heimsóknir frá fjölskyldu eigi sjaldnar en vikulega en heimsóknir frá vinum skulu ekki vera fleiri en tvær í mánuði nema í sérstökum tilvikum.
Fangi sem afplánar í opnu fangelsi getur fengið heimsóknir frá fjölskyldu og vinum eigi sjaldnar en vikulega ef aðstæður í fangelsi leyfa og slíkt telst gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu hans.
Fangelsismálastofnun setur nánari reglur um heimsóknir, svo sem um undanþágur fyrir fleiri vinaheimsóknum.

Í 46. gr. laganna segir að forstöðumaður geti ákveðið að heimsóknir tiltekinna manna fari fram undir eftirliti starfsmanns, í öðrum vistarverum fangelsis, eða með því að banna líkamlega snertingu gests og fanga eða banna tilteknum mönnum að heimsækja fanga ef nauðsynlegt þykir til að viðhalda ró, góðri reglu og öryggi í fangelsi og til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað eða ef ástæða er til að ætla að heimsóknin verði misnotuð að öðru leyti. Slíka ákvörðun skal rökstyðja skriflega.
Heimilt er að rjúfa heimsókn ef það þykir nauðsynlegt til að viðhalda ró, góðri reglu og öryggi í fangelsi eða til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað.
Heimsókn lögmanns til fanga skal ávallt vera án eftirlits nema lögmaður óski annars.

Í 47. gr. laganna segir að fangelsisyfirvöld skuli kanna bakgrunn og sakaferil heimsóknargests áður en forstöðumaður samþykkir heimsóknina. Við könnunina er heimilt að afla upplýsinga úr málaskrá lögreglunnar fimm ár aftur í tímann og úr sakaskrá til yfirvalda. Leggja skal heildstætt mat á það hvort óhætt sé að heimila heimsókn en aldrei má þó ganga lengra við könnun á bakgrunni og sakaferli en þörf er á hverju sinni.
Heimilt er að leita á þeim sem heimsækja fanga. Leit getur annars vegar verið leit í ytri fötum og hins vegar líkamsleit, enda samþykki heimsóknargestur það. Samþykki hann það ekki skal heimsóknin fara fram með öðrum hætti eða synja um hana, sbr. 1. mgr. 46. gr.
Heimilt er að skoða það sem farið er með til fanga. Munir eða efni sem gestur hefur meðferðis og fanga er óheimilt að hafa í fangelsi skulu vera í vörslu fangelsis á meðan á heimsókn stendur.
Upplýsa skal þann sem kemur í heimsókn til fanga um þær reglur er gilda um heimsóknir.

Í 48. gr. laganna segir að forstöðumanni fangelsis beri að skipuleggja aðstæður þannig að börn geti komið með í heimsóknir og að þeim sé sýnd nærgætni. Þurfi heimsókn að fara fram utan fangelsis vegna hagsmuna barns skal það gert á grundvelli álits barnaverndaryfirvalda eða annarra sérhæfðra aðila.
Heimsóknir barna yngri en 18 ára skulu fara fram í fylgd forsjáraðila eða annars aðstandanda, enda liggi fyrir skriflegt samþykki forsjáraðila fyrir því.
Rjúfa skal heimsókn þar sem börn eru ef talið er að hún brjóti gegn hagsmunum þeirra.


Reglur fyrir heimsóknargesti fanga.

Þeim sem heimsækja fanga í fangelsi er vinsamlegast bent á eftirfarandi:

  • Heimsóknargestur getur ekki sjálfur átt frumkvæði að heimsókn til fanga, heldur þarf viðkomandi fangi að sækja um heimsóknarleyfi og tíma á þar til gerðu eyðublaði.
  • Heimsóknargestur verður sjálfur að staðfesta að hann óski eftir að koma í heimsókn með því að senda tölvupóst á póstfangið heimsokn@fangelsi.is eða heimsoknir@fangelsi.is þar sem bakgrunnur hans er skoðaður sbr. 47. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016.
  • Við komu í fangelsi þarf heimsóknargestur að hafa með sér skilríki og sýna fangavörðum ef um er beðið. Geti gestur ekki framvísað persónuskilríkjum er fangavörðum heimilt að vísa honum frá.
  • Óheimilt er að koma með farsíma eða önnur síma- eða boðtæki í heimsókn í fangelsi.
  • Ekki er leyfilegt að koma með matvæli eða drykkjarvörur til fanga í heimsóknartímum.
  • Bannað er að koma með áfengi, lyf eða önnur vímugefandi efni inn í fangelsið.
  • Fangavörðum er heimilt að vísa heimsóknargesti frá ef hann er undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.
  • Peninga, fatnað og aðra muni sem föngum eru ætlaðir, skal afhenda fangavörðum við komu í fangelsið.
  • Heimsóknargestir geyma handtöskur, veski og aðra lausamuni í læstu geymsluhólfi meðan á heimsókn stendur.
  • Börn yngri en 18 ára skulu vera í fylgd forsjáraðila eða annars aðstandanda og þá þarf að liggja fyrir skriflegt samþykki forsjáraðila fyrir því.  Sjá upplýsingar fyrir foreldra um heimsóknir barna í fangelsi.   Sjá upplýsingar fyrir börn fanga á síðu umboðsmanns barna.
  • Aðstandendum og verðandi heimsóknargestum er bent á að snúa sér til varðstjóra fangelsis óski þeir eftir frekari upplýsingum um heimsóknir til fanga.

 

Athygli er vakin á því að brot á þessum reglum geta orsakað heimsóknarbann auk þess sem refsiverð athæfi eru kærð til lögreglu.

 

 

Senda grein