Kæruleiðir
Ákvarðanir samkvæmt lögum um fullnustu refsinga nr. 15/2016 eru kæranlegar til innanríkisráðuneytisins nema annað sé tekið fram sbr. 96. gr. laganna.
Fangi á ekki rétt á aðgangi að málsgögnum sem innihalda upplýsingar um aðra fanga eða öryggisatriði viðkomandi fangelsis.
Heimilt er að halda gögnum og upplýsingum frá fanganum ef slíkt telst nauðsynlegt með tilliti til öryggis fangelsis, brotaþola, vitna eða annarra sem tengjast máli fanga, annarra fanga, rannsóknar sakamáls eða annarra sérstakra ástæðna.
Samkvæmt 78. gr. laganna skulu ákvarðanir um agaviðurlög skv. 74. gr. og vistun í öryggisklefa skv. 76. gr. sæta kæru til innanríkisráðuneytisins og skal skýra fanga frá því um leið og ákvörðun er birt. Þegar ákvörðun er kærð skulu gögn málsins þegar send ráðuneytinu.
Ráðuneytið skal kveða upp úrskurð innan fjögurra virkra daga frá því að kæra barst, ella fellur hin kærða ákvörðun úr gildi. Upphafsdagur frestsins telst vera næsti virki dagur á eftir þeim degi þegar kæran berst ráðuneytinu. Úrskurðarfrestur ráðuneytisins gildir þó ekki ef kæra vegna agaviðurlaga berst ráðuneytinu eftir að gildistími agaviðurlaga hefur liðið undir lok eða ef agaviðurlög felast í áminningu. Ráðuneytið skal þó ávallt leitast við að kveða upp úrskurð eins fljótt og auðið er.