Fangavarðaskóli ríkisins

Tilgangur

Fangelsismálastofnun skal sjá til þess að fangaverðir hljóti viðhlítandi menntun og þjálfun í fangavarðafræðum þegar þörf er á. sbr. 9. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016.

Tilgangur Fangavarðaskóla ríkisins er að bæta fagleg vinnubrögð fangavarða, auka víðsýni þeirra og þekkingu á starfinu og efla starfsþjálfun almennt. Umsóknareyðublað.

Hlutverk

Hlutverk Fangavarðaskóla ríkisins er fyrst og fremst að veita fangavörðum almenna menntun er lýtur að hlutverki og starfsemi fangelsa, fullnustu refsinga svo og endur- og sérmenntun í hinum ýmsu greinum fangavörslunnar.

Þá ber Fangavarðaskólanum að sjá um að nýliðanámskeið sé haldið ár hvert fyrir afleysingafangaverði, u.þ.b. 30 stunda námskeið. Enn fremur að haldið sé námskeið fyrir starfandi fangaverði og endurmenntun eftir því sem við verður komið.

Saga

Fangavarðaskóli ríkisins var stofnaður haustið 1983. Í upphafi var skólinn til húsa í Lögreglustöðinni við Hverfisgötu, en var síðan fluttur í dómssal Hegningarhússins að Skólavörðustíg 9. Eftir 1996 var skólinn í leiguhúsnæði hjá Tölvuskóla Reykjavíkur í Borgartúni en frá árinu 2001 hefur hann verið í húsnæði Lögregluskólans að Krókhálsi. Fjöldi nemenda hefur verið frá 5 til 15 talsins. Fangavarðaskólinn er ekki rekinn á hverju ári vegna fárra nemenda, en almennt er miðað við að 7-8 nemendur séu við skólann hverju sinni.

Árið 1996 var samin reglugerð um menntun fangavarða og skilyrði þess að vera ráðinn fangavörður (rgl. nr. 11/1996). Með setningu reglugerðarinnar var sú nýbreytni tekin upp að menntun fangavarða skyldi vera þrískipt, þ.e. grunnnám í 12 vikur, starfsþjálfun í 12 vikur og framhaldsnám í 10 vikur, eða samtals í átta og hálfan mánuð, en hafði áður aðeins verið 3 mánuðir (grunnnám).

reglugerð um menntun fangavarða nr. 347/2007 var sett 29. mars 2007. Með hinni nýju reglugerð var felld úr gildi reglugerð um menntun fangavarða og skilyrði þess að vera ráðinn fangavörður sem sett 10. apríl 2000. Fangavarðaskólinn heyrir undir Fangelsismálastofnun og umsjónarmaður, sem stofnunin ræður, annast daglega stjórn skólans. Núverandi umsjónarmaður Fangavarðaskólans er Guðmundur Gíslason, forstöðumaður fangelsa á höfuðborgarsvæðinu. Skólanefnd, skipuð forstjóra Fangelsismálastofnunar eða fulltrúa hans, fulltrúa dóms- og kirkjumálaráðuneytis og fulltrúa fangavarðafélags Íslands, er stofnuninni til ráðgjafar um skipulag og fagleg málefni skólans. Umsjónarmaður skólans situr fundi nefndarinnar og hefur tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.

Sjá nánari upplýsingar um sögu Fangavarðaskólans ríkisins í grein sem birt var í afmælisriti finnska fangavarðaskólans á árinu 2006.

Fyrsti hópurinn sem lauk námi frá Fangavarðaskólanum eftir gildistöku reglugerðar nr. 347/2007 útskrifaðist í október 2007. Á síðari önninni unnu nemendur þrjú sjálfstæð hópverkefni sem lauk með málstofu þar sem þeir sátu fyrir svörum.

Senda grein